Langá á Mýrum - Frábær veiði og þjónusta. Góður kostur fyrir litla og stóra hópa.

Langá á Mýrum er ein af bestu laxveiðiám landsins og á sér fjölmarga aðdáendur. Langá er fjölbreytt veiðiá með um eitt hundrað skráða veiðistaði en áin á upptök sín í Langavatni 36 kílómetrum frá sjó. Veiðin í Langá sumarið 2013 var frábær, 2.815 laxar komu á land sem er önnur besta veiðin í Langá. Horfur fyrir næsta ár eru góðar en mælingar vísindamanna á seiðabúskap Langár sýna að lífríki árinnar er í blóma. Vonir veiðimanna standa því til að veiðin í Langá verði áfram góð en mesta veiðin í Langá var sumarið 2008 þegar veiddust 2.970 laxar í ánni. Veitt er á 8-12 stangir í ánni en sumarið 2014 verður boðið upp á þá nýjung að hægt verður að kaupa 4 stangir sem veiða saman á svæði með möguleika á að borða kvöldverð saman í notalegum matsal í nýrri viðbyggingu Langárbyrgis sem tekin var í notkun sumarið 2013. Smærri hópar geta því notið sín og verið út af fyrir sig þó svo að fleiri séu að veiðum á sama tíma en nýi salurinn rúma allt að átta veiðimenn.
Síðustu sjö daga tímabilsins verður boðið upp á staka daga í Langá án fæðis- og gistingar. Veiðimenn hafa aðgang að vöðlu- og laxageymslu en veiðihúsið verður lokað. Aðeins verður veitt á 8 stangir og því mjög rúmt um veiðimenn. Þetta er einstakt tækifæri fyrir þá sem vilja kynnast töfrum Langár í mögnuðum umhverfi á Mýrunum.
Langá á Mýrum - Almennar upplýsingar
Staðsetning:Mýrar, í nágrenni Borgarness
Veiðisvæði:Áin frá Ármótafljóti niður í Sjávarfoss
Tímabil:21/6 - 24/9
Veiðileyfi:Tveir eða þrír dagar í senn. Í september er um tveggja daga holl að ræða en í ágúst er veitt í þrjá daga. Stakir dagar 21.-24. september.
Daglegur veiðitími:Veitt er frá morgni til kvölds, kl. 7-13 og 16-22. Eftir 16. ágúst er veitt á seinni vaktinni frá kl. 15-21. Á stökum dögum í september er veitt frá 8-20 án hlés.
Fjöldi stanga:8-12
Leyfilegt agn:Einungis er veitt á flugu í Langá.
Vinsælar flugur:Gáruflugur, Frances, Snælda og Langá Fancy.
Veiði síðastliðið ár:2.815 laxar sumarið 2013
Umsjónaraðili:

Veiðihús

Það væsir ekki um veiðimenn í Langárbyrgi sem stendur á bökkum hinna rómuðu Hvítsstaðahylja. Húsið er nýlegt með tólf tveggja manna herbergjum með baðherbergi. Í gufubaðinu er kjörið að fara yfir helstu afrek dagsins á bakkanum og aðstaða fyrir vöðlur, skó og tilheyrandi er jafnframt mjög góð. Nýr rekstraraðili, Magnús Héðinsson, mun sjá um rekstur Langárbyrgis frá og með sumrinu 2014. Magnús hefur mikla reynslu af rekstri veiðihúsa og rak veiðihúsin í Þverá og Kjarrá í 23 ár. Með góðum aðbúnaði og framúrskarandi þjónustu í veiðihúsinu er SVFR með markvissum aðgerðum að gera upplifun veiðimanna einstaka og eftirminnilega. Verð fyrir húsið er 24. júní - 3. júlí kr. 14.900 Verð 3. júlí - 27. ágúst kr. 23.900 Verð 27. ágúst - 19. september kr. 11.900 3.000 kr. aukagjald ef einn á stöng

Leiðarlýsing að veiðihúsi

Eftir að keyrt hefur verið í gegnum Borgarnes er beygt á hringtorginu inn Snæfellsnesveg (nr. 54). Áður en keyrt er yfir Langánna þá er beygt til hægri inn veg 536 í átt að Jarðlangsstöðum og sem leið liggur í gegnum nokkuð þétta sumarbústaðarbyggð. Þegar komið er að Jarðlangsstöðum sem eru þá á hægri hönd ætti Langárbyrgi að standa í öllu sínu veldi vinstra megin við veginn.

Annað

Ríflegur kvóti Það er til marks um góða veiði í Langá að kvóti veiðimanna á hverri vakt er ríflegur eða 5 laxar á stöng. Það eru vinsamleg tilmæli til veiðimanna að sleppa 70 cm laxi og stærri í ána aftur í samræmi við tilmæli Veiðimálastofnunar og SVFR.
Það er einstakt að veiða í Langá vegna þess að fjölbreytileikinn er svo mikill. Í byrjun sumars iða neðstu svæðin af lífi og þegar kemur fram á haustið bíða þín endalausir möguleikar á Fjallinu.Karl Magnús Gunnarsson
Fara efst á síðu
 
 
Icelandic English Spanish German French