Langá opnaði í gær

Langá á Mýrum opnaði í gær með miklum glæsibrag. Tilhlökkun var mikil því tölur úr teljaranum gáfu til kynna að veiðimenn ættu eftir að lenda í ævintýrum. Síðustu tölur höfðu borist skrifstofu á mánudag og þá höfðu rúmlega 200 fiskar gengið í gegnum teljarann. Það var því ekkert óeðlilegt að spenna væri fyrir opnuninni og Langáin stóð við sitt. Morgunvaktin á opnunardaginn gaf 20 laxa, mest tveggja ára hrygnur og dreifing á laxinum mjög góð. Fiskur er kominn alla leið upp í Langasjó og 11 laxar hafa gengið í gegnum teljarann í Sveðjufossi.

Við bíðum eftir tölum úr teljaranum en síðustu tölur sögðu 336 laxar og töluvert er af laxi í Strengjunum, Breiðunni og Krókódíl. Við heyrðum í Karli Lúðvíkssyni staðarhaldara í gærkvöldi og var hann ekki með staðfestar tölur af kvöldvaktinni en skaut á 20 – 25 laxa eftir því sem hann hafði heyrt. Við flytjum ykkur fréttir af gangi mála þegar við heyrum meira.