Almennar upplýsingar
- Staðsetning: Í Vestur Skaftafellssýslu um 50 km austan við Vík í Mýrdal, um 250 km frá Reykjavík.
- Veiðisvæði: Rafstöðvarlón og báðar kvíslar Eldvatnsbotna að merktum veiðimörkum. Veiðisvæðið nær u.þ.b. tvo km í hvorri kvísl frá lóninu að merktum veiðimörkum.
- Tímabil: 28. júní – 10. október
- Veiðileyfi: Tvær stangir í tvo daga í senn nema í júní og júlí þegar seldar eru heilar vikur frá föstudegi til föstudags. Stangirnar tvær eru seldar saman. Fyrir 27. júlí er einungis leyfð veiði í Rafstöðvarlóni og Fljótsbotni.
- Daglegur veiðitími: 7-13 og 16-22, 21. júní til 13. ágúst og 7-13 og 15-21, 14. ágúst til 10. október. Veiði hefst og lýkur á miðjum degi.
- Fjöldi stanga: 2
- Leyfilegt agn: Eingöngu er leyfð fluguveiði með flugustöngum, flugulínum og fluguhjólum í ánni. Öllum fiski skal sleppt aftur.
- Vinsælar flugur: Straumflugur og púpur ýmis konar. Mikið er af bæði vorflugu og mýflugu í ánni og skulu veiðimenn taka mið af því við val á púpum.
- Meðalveiði: Um 100 fiskar á ári.
- Kvóti: Veitt og sleppt. Öllum fiski skal sleppt aftur.
Veiðihús
- Herbergi: 3 herbergi
- Svefnpláss: Fyrir 5 manns
- Vöðlugeymsla: Já
- Fjöldi sænga: 5
Húsið er ágætlega búið tækjum og áhöldum. Í því eru þrjú herbergi, tvö með tveimur rúmum en það þriðja er með einu rúmi (samtals fimm rúmstæði). Sængur fyrir 5 eru í húsinu. Húsið er bæði raf- og gasvætt, m.a. er örbylgjuofn og eldunarhella í eldhúsinu.
Veiðimenn mega koma í húsið klukkustund eftir að veiðitíma lýkur og skulu rýma það á sama tíma brottfarardag. Veiðimenn leggja sjálfir til allan rúmfatnað og hreinlætisvörur. Vinsamlegast þrífið húsið vandlega við brottför og takið með ykkur allt rusl. Það er ekki bakaraofn í húsinu en eldunarhella og allur helsti borðbúnaður. Húsið er opið og við biðjum veiðimenn að skilja það eftir opið við brottför. Lyklar að húsinu eru inni í húsinu ef menn vilja læsa á meðan þeir eru við veiðar. Fólksbílafært er að veiðihúsinu en það þarf hærri bíl til að aka slóðana niður með ánni.
Gasgrill er í húsinu og ef gas klárast er stutt að skjótast að bænum Botnar til að fá annan gaskút.
Veiðin
Vinsældir veiðisvæðisins í Eldvatnsbotnum hafa aukist mikið undanfarin ár enda er þar að finna bæði fallegt umhverfi og fína veiði, auk þess sem hægt er að setja í stóra fiska.
Eldvatnsbotnar eru efsti hluti Eldvatnsins í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu, tveggja stanga sjóbirtingsveiðisvæði í fögru umhverfi í landi Botna. Áin á upptök sín í svokölluðu Rafstöðvarlóni sem er sunnan við bæinn að Botnum. Hún rennur í tveimur kvíslum úr vatninu og er veiði í báðum kvíslunum, einkum þó þeirri vestari. Veiðimenn mega einnig veiða í Lóninu.
Eldvatnsbotnasvæðið er að öðru jöfnu snemmgengara en önnur sjóbirtingssvæði á Suðurlandi og er besti tíminn þar frá því um 10.-14. ágúst og út ágústmánuð.
Búnaður
Best er að veiða ána með 9-10 feta einhendum. Sjóbirtingur er ljósfælinn fiskur og þarf því oft að sökkva flugum til að ná niður til hans og henta því flotlínur með sökkenda vel fyrir veiðar á daginn en þegar komið er fram í rökkur er oftast betra að vera með flotlínur. Ef veitt er með púpum andstreymis er best að veiða með flotlínum.
Leiðarlýsing að veiðihúsi
Fjarlægðin frá Reykjavík er um 250 km en ekið er eftir þjóðvegi nr. 1 um 50 km leið austur fyrir Vík í Mýrdal. Þar er beygt til hægri á afleggjara að bænum Botnar. Afleggjarinn er um 6,5 km langur og er farið um hlaðið á bænum, beygt til hægri og áfram um 2 kílómetra að veiðihúsinu.
ANNAÐ
Frá og með veiðisumrinu 2017 skal öllum fiski sleppt.