Almennar upplýsingar

 • Staðsetning: Reykjavík
 • Veiðisvæði: Breytt svæðaskipting verður kynnt í lok janúar 2020

  Óheimilt er að veiða á eftirtöldum stöðum: Ekki má veiða nær laxastiga í Elliðavatnsstíflu en 50 metra. Sama gildir um Árbæjarstíflu og teljarann við Rafstöðina, þar sem veiði er óheimil 50 metrum fyrir ofan og neðan þessi mannvirki. Veiði er bönnuð í vesturkvísl Elliðaánna, frá Höfðabakkabrú að sjó.

 • Tímabil: 21. júní til 15. september.
 • Veiðileyfi: Hálfur dagur í senn
 • Daglegur veiðitími: Kl. 7.00–13.00 og 15.00–21.00 daglega
 • Fjöldi stanga: 4-6
 • Leyfilegt agn: Fluga eingöngu
 • Vinsælar flugur: Frances, Snælda, Silver sheep.
 • Meðalveiði: Um 900 laxar á ári.
 • Kvóti: Öllum laxi sleppt
Veiðikort árnefndarskýrsla 2018

Veiðihús

Veiðihúsið er lítið og þægilegt og notað í upphafi daglegs veiðitíma til að draga um svæði og í lok veiðitímans til að skrá afla. Þar er salernisaðstaða fyrir veiðimenn.

Veiðin

Það er harla fágætt að geta stundað laxveiðar í miðri höfuðborg, en við Íslendingar getum stært okkur af því. Elliðaárnar eru perla Reykjavíkur og heimavöllur SVFR. Áin er aðgengileg og hafa margir stigið sín fyrstu skref í veiðinni á bökkum þeirra enda árnar einstaklega fjölskylduvænar.

Veiðin hefur verið stöðug og góð undanfarin ár, en meðalveiði síðustu 9 ára er tæplega 1.000 laxar. 960 laxar veiddust sumarið 2018. Af þeim tóku 584 flugu en 376 laxar komu á maðk. Það er bjart framundan því lífríki Elliðaánna er í blóma, árnar algjörlega sjálfbærar og samkvæmt mælingum vísindamanna þá er seiðastofninn 2015 vel haldin og yfir meðallagi.

Við ítrekum að öllum laxi skal sleppt, en sleppiskylda er breyting frá fyrra ári.

SVFR býður upp á stórskemmtilega vorveiði á urriða í Elliðaánum í maí. Veitt er á tvær stangir hálfan dag í senn. Aðeins er leyft að veiða á flugu í vorveiðinni.

Leiðarl‎‎ýsing að veiðihúsi

Veiðihúsið stendur í hólmanum á milli austur- og vesturkvíslarinnar, rétt ofan vegarins upp Ártúnsbrekku. Sé ekið niður Breiðholtsbraut er beygt til hægri inn á aðrein að Vesturlandsvegi. Á miðri aðreininni er beygt til hægri inn á afleggjara sem liggur að veiðihúsi.

ANNAÐ

Veiðireglur Í byrjun veiðitíma skulu veiðimenn (báðir ef tveir eru um stöng) koma í veiðihúsið og afhenda veiðiverði leyfi sitt. Dregið er um svæði 15 mínútum fyrir upphaf veiðitíma á hverri vakt. Veiðimönnum er skylt að mæta í veiðihús eftir að veiði lýkur, jafnvel þótt þeir hafi ekkert veitt. Einungis er heimilt að veiða á flugu með flugustöng. Reglur um það eru í veiðihúsi og kynntar í upphafi veiða. Veitt er á fjórar stangir í júní og frá og með 16. ágúst til loka veiðitímans. 

Ef veiðimenn eða aðrir verða varir við veiðiþjófnað utan skrifstofutíma, þá er hægt að hringja í veiðiumsjón í síma 821-3977 annars er hægt að hringja á skrifstofu SVFR í síma 568-6050