Almennar upplýsingar

 • Staðsetning: Veiðisvæðið er í um 90 km. fjarlægð frá Akureyri, um 40 mínútna akstur frá Húsavík
 • Veiðisvæði: Efra svæðið nær yfir þann hluta árinnar er tilheyrir Mývatnssveit og efsta hluta Laxárdals. Á svæðið eru seldar 14 dagstangir.
 • Tímabil: 29. maí – 26. ágúst
 • Veiðileyfi: Boðið er einn dag upp í nokkurra daga holl yfir veiðitímann.
 • Daglegur veiðitími: Frá klukkan 08.00 til 14.00 og 16.00 til 22.00. Eftir 15. ágúst er seinni vaktin frá 15.00 til 21.00.
 • Fjöldi stanga: 14
 • Leyfilegt agn: Fluga
 • Vinsælar flugur: Hinir ýmsu kúluhausar, þurrflugur og straumflugur
 • Meðalveiði: um 3.000 urriðar á ári
 • Kvóti: Leyfilegt er að hirða 1 urriða á vakt. Öllum fiski undir 35 cm skal sleppt. Þá er einnig skylt að sleppa 60 cm og yfir
Árnefndarskýrsla 2018

Veiðihús

 • Herbergi: 13 tveggja manna herbergi og 5 eins manns.
 • Svefnpláss: Fyrir 31 manns
 • Vöðlugeymsla:
 • Þjónusta: Uppábúin rúm og fullt fæði

Veiðimenn gista í veiðihúsinu Hofi þar sem þeir greiða fyrir uppábúin rúm og fullt fæði á staðnum. Heitur pottur er við húsið ásamt setustofu og stórum matsal þar sem matur er framreiddur á hlaðborði.

Fæði og gisting kosta kr. 17.900 á mann á dag, en við bætast kr. 2.000.- aukagjald ef einn er um stöng.

Veiðin

„Aldrei upplifað annað eins!“ Það hafa margir veiðimenn látið þessi orð falla, ekki síst eftir sína fyrstu heimsókn í Mývatnssveitina. Óhætt er að fullyrða að urriðasvæðin í Laxárdal og Mývatnssveit séu einstök á heimsvísu. Þeir sem vilja fá ógnarfallegt umhverfi og mikið af urriða þá er Mývatnssveitin rétti staðurinn.

Fyrir utan góða og jafna veiði undanfarin ár þá er áin einstök. Hraðir strengir og fallegir flóar, flúðir og hægfara hyljir; allt í umhverfi sem á engan sinn líka. Þetta er einfaldlega svæði sem allir fluguveiðimenn verða að prófa að minnsta kosti einu sinni á ævinni.

Í Mývatnssveit er meðalstærðin smærri en í Laxárdal en þar veiðast talsvert fleiri fiskar. Aðgengi er erfiðara en í Laxárdal og þurfa veiðimenn að ganga spöl að veiðistöðum á sumum svæðum. Sumarið 2018 veiddust alls 3.468 urriðar á svæðinu sem var 6% aukning frá því 2017

Kvóti er á veiðinni, tveir urriðar á dag, einn á hvorum dagsparti. Veiðimönnum er skylt að sleppa smáfiski undir 35cm að lengd og lengri fiski en 60cm.

Búnaður

Við mælum með að notaðar séu einhendur 9 – 10 feta því lengri stangir henta mjög vel í andstreymis púpuveiðar. Við mælum með flotlínum í púpuveiðarnar, flotlínum með sökkenda í straumfluguveiðina. Best er að vera með stangir sem ráða við þyngdar púpur og tökuvara svo við mælum með stöngum fyrir línuþyngd 6-7 þó 5 gæti líka gengið. Fyrir þurrfluguveiðina mælum við með nettari græjum, línuþyngd 4-5.

Leiðarl‎‎ýsing að veiðihúsi

Keyrt er yfir Fljótsheiði á leið austur frá Akureyri. Þegar komið er niður af heiðinni er tekin hægri beygja í átt að Laugum (vegur 1) og keyrt sem leið liggur í átt að Mývatni. Þegar komið er að vinstri beygju sem liggur yfir brúnna sem er yfir Laxá þá er veiðihúsið þar á vinstri hönd þegar komið er yfir brúnna.

ANNAÐ

Veiðireglur: Aðeins skal veitt með flugu og nota skal þar til gerðar flugustangir, flugulínur og fluguveiðihjól.