Risa urriði úr Mývatnssveit

Árni Ísberg fékk einn stærsta urriða sem vitað er um að veiðst hafi í Mývatnssveit þann 18. júlí s.l. Urriðinn var 81 cm að lengd. Samkvæmt okkar upplýsingum er vitað um einn lengri fisk en sá var 82 cm og veiddist í Geirastaðaskurði 2012.

Árni var við veiðar á Hamarssvæðinu ásamt veiðifélaga sínum Óskari Þorsteinssyni. Þeir voru hvort með myndavél né síma meðferðis en þegar Óskar sér hverskonar fiskur hafði tekið hjá Árna flýtti hans sér upp í bíl og sótti símann til að geta fangað mynd af fisknum.

Háfurinn sem þeir höfðu var allt of lítill fyrir svona fisk svo Óskar varð að lyfta honum upp á bakkann með berum höndum. Þeir náðu að mæla hann nákvæmlega á lengdina, 81 cm og síðan var tekin myndataka og höfðinginn fór út í aftur.  Fiskurinn tók strax við sér og virtist hress og tilbúinn fyrir átök við komandi veiðimenn. Fiskurinn veiddist í Hólkostflóa og tók hann nálægt landi í annarri bugt neðan markagirðingarinnar að Hofstaðalandinu.

Veitt var á níu feta stöng fyrir línu 5-6 með sökklínu og óþyngdri Hólmfríði nr. 6. Stuttu síðar fékk Óskar 62 cm fisk á svartann nobbler rétt ofan við merkið svo meðallegndin var góð þennan morgun þegar restin af dýpstu lægð sumarsins gekk yfir.

Þar sem ekki náðist að vikta fiskinn væri gaman að fá tillögur veiðimanna eða ágiskun á hversu þungur þessi fiskur var.

 

Við óskum þeim félögum til hamingju með fallega fiska á þessari vakt og vekjum að sjálfsögðu athygli á því að hægt er að finna lausa daga á vefsölunni í Mývatnssveitinni og Laxárdalnum í ágúst.

 


Árni Ísberg með fiskinn væna!

 

 

By admin Fréttir