Almennar upplýsingar

  • Staðsetning: Veiðisvæðið er í um 90 km. fjarlægð frá Akureyri, um 20 mínútna akstur frá Húsavík
  • Veiðisvæði: Veiðisvæðið nær frá Laxárvirkjun niður að veiðimörkum við Múlatorfu við Kálfalæk (vesturbakki).  Veiðimönnum er skylt að skrá allan afla, einn fisk í hverja línu.
  • Tímabil: 1. júní – 10. sept
  • Veiðileyfi: Einn eða fleiri dagar frá morgni til kvölds. Stangirnar seljast saman.
  • Daglegur veiðitími: Frá klukkan 07.00 til 13.00 og 16.00 til 22.00. 
  • Fjöldi stanga: 2
  • Leyfilegt agn: Fluga
  • Vinsælar flugur: Hinir ýmsu kúluhausar, þurrflugur og straumflugur
  • Meðalveiði: um 4-500 urriðar á ári
  • Kvóti: Leyfilegt er að hirða 2 urriða á vakt. Öllum fiski undir 35 cm skal sleppt. Öllum laxi skal sleppt aftur.
Veiðikort

Veiðin

Laxá er eitt frjósamasta straumvatn á Íslandi og þar má finna einn sterkasta urriðastofn landsins. SVFR hefur á sinni könnu tvö af veiðisvæðunum efst í Aðaldal, neðan Laxárvirkjunar, en þar má finna sannkallaða paradís silungsveiðimannsins. Veiðisvæði Múlatorfu eru fjölbreytt og skemmtilegur kostur fyrir þá sem vilja njóta veiða í fallegu umhverfi.

Á Staðartorfu og Múlatorfu er silungsveiðimaðurinn á heimavelli og má búast við góðri urriðaveiði. Þegar líður á sumarið kemur lax inn á svæðið og veiðast alltaf nokkrir laxar á hverju sumri á Svæðinu. Er veiðimönnum bent á að skylt er að sleppa öllum laxi.

Á þessu fjölbreytta veiðisvæði hafa veiðst stórir silungar, allt að ellefu pund, en mikið af urriðanum er tvö til þrjú pund. Veiðimenn eru hvattir til að hlífa stærri urriðanum og hirða frekar þá minni sem eru mun betri matfiskar. Stórbrotið landslag er í Aðaldalnum og mikið fuglalíf við ána og eru veiðimenn beðnir að taka tillit til þess og ganga varlega um. Veiðisvæðið að Múlatorfu hefur verið að gefa alveg fantagóða veiði undanfarin ár, eða hátt í þúsund silunga árlega, auk nokkurra tuga laxa. Því er óhætt að fullyrða að svæðið sé afar góður kostur fyrir silungsveiðimanninn, svo ekki sé dýpra í árina tekið.

Vegna bágs ástands laxastofns svæðisins er laxinn friðaður fyrir allri veiði. Slysist lax til að taka fluguna ber að sleppa honum. Ef að lax særist það illa að honum sé ekki hugað líf skal koma honum til landeigenda.

Búnaður

Við mælum með að notaðar séu einhendur 9 – 10 feta því lengri stangir henta mjög vel í andstreymis púpuveiðar. Við mælum með flotlínum í púpuveiðarnar, flotlínum með sökkenda í straumfluguveiðina. Best er að vera með stangir sem ráða við þyngdar púpur og tökuvara svo við mælum með stöngum fyrir línuþyngd 6-7 þó 5 gæti líka gengið. Fyrir þurrfluguveiðina mælum við með nettari græjum, línuþyngd 4-5.