Lög Stangaveiðifélags Reykjavíkur
Svohljóðandi samþykkt á aðalfundi 28. febrúar 2022

1. GR. – NAFN OG HEIMILI
Nafn félagsins er Stangaveiðifélag Reykjavíkur, skammstafað SVFR. Heimilisfang þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. GR. – TILGANGUR
Tilgangur félagsins er:

  1. Að gæta hagsmuna félagsmanna, útvega þeim veiðileyfi og taka í því skyni veiðivötn á leigu, kaupa veiðisvæði og/eða annast umboðssölu á veiðileyfum.
  2. Að efla hróður stangaveiði með almennri fræðslu um íþróttina, með því að hvetja til hófsemi í veiði og stuðla að því að veiðimenn virði settar veiðireglur og umgangist náttúruna af virðingu og tillitssemi.
  3. Að styrkja stöðu stangaveiði sem almennings- og fjölskylduíþróttar.
  4. Að efla áhuga barna og unglinga á stangaveiði, m.a. með kennslu í veiðileikni í ám og vötnum og hvers konar fræðslustarfi.
  5. Að vinna að samstöðu stangaveiðimanna og standa vörð um rétt þeirra og hagsmuni.
  6. Að stuðla að góðri samvinnu við veiðiréttareigendur og standa fyrir, ásamt þeim, umbótum á veiðisvæðum sem félagið hefur til umráða.

3. GR. – FÉLAGSAÐILD
Félagsmenn geta þeir orðið sem eru íslenskir ríkisborgarar eða einstaklingar sem eiga lögheimili á Íslandi, enda sé inngöngubeiðni þeirra samþykkt af stjórn félagsins eða með meirihluta atkvæða á aðalfundi. Í undantekningartilvikum er stjórn heimilt að samþykkja inngöngu annarra einstaklinga, sem hafa sérstök tengsl við félagið eða langa viðskiptasögu. Félagsmenn eru skuldbundnir að fara að lögum félagsins.

4. GR. – GJÖLD
Árgjald félagsmanna er ákveðið á aðalfundi. Stjórn ákveður gjalddaga hvers árs.

Árgjöld þeirra sem eru 67 ára og eldri, barna og unglinga yngri en 20 ára og maka félagsmanna skulu vera að hámarki 50% af fullum gjöldum og eru ákveðin á aðalfundi.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg. Skuldi félagsmaður tvenn árgjöld er stjórn félagsins heimilt að fella hann af félagaskrá. Segi félagsmaður sig úr félaginu eða er felldur af félagaskrá missir hann sjálfkrafa sæti sín í stjórnum, ráðum eða nefndum á vegum félagsins.

5. GR. – EIGNIR OG ÁBYRGÐ
Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af sjóðum félagsins, eða öðrum eignum þess, þótt hann hverfi úr því eða félaginu sé slitið.

Enginn félagsmaður ber ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum félagsins með öðru en félagsgjöldum sínum.

6. GR. – STJÓRN OG STJÓRNARKOSNING
Stjórn félagsins skipa sex menn auk formanns.

Formaður skal kosinn til eins árs en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára, þó þannig að á hverju ári er kosið um þrjá meðstjórnendur. Stjórn skiptir með sér verkum.

Fyrir lok desembermánaðar ár hvert skal stjórn SVFR skipa þriggja manna kjörnefnd, sem annast skal undirbúning og framkvæmd kosninga til stjórnar og fulltrúaráðs.

Framboðum til stjórnar skal skila skriflega til skrifstofu félagsins eigi síðar en fjórtán (14) dögum fyrir aðalfund.

Kjörnefnd úrskurðar um lögmæti framboða og skal að því gerðu birta nöfn frambjóðenda á vefsvæði SVFR eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund. Frambjóðendum býðst að kynna sig og áherslumál sín á vefsvæði félagsins auk þess sem kjörnefnd er heimilt að boða til sérstaks kynningarfundar með frambjóðendum.

Allir félagsmenn 18 ára og eldri, sem greitt hafa félagsgjöld sín eru kjörgengir.

Stjórnarkosning fer fram á aðalfundi, í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og/eða í rafrænni kosningu, eftir ákvörðun kjörnefndar hverju sinni. Atkvæðisrétt hafa þeir sem eru á félagaskrá í lok síðasta mánaðar áður en kosning fer fram, hafa greitt félagsgjald og hafa náð 18 ára aldri.

Kjörgengir félagsmenn geta kosið á skrifstofu félagsins á hefðbundnum afgreiðslutíma síðustu fimm virka daga fyrir aðalfund. Ef kosið er rafrænni kosningu skal hún hefjast fimm sólarhringum fyrir aðalfund og ljúka á aðalfundinum sjálfum, í samræmi við auglýsta dagskrá fundarins.

Kosið skal skriflega bundinni kosningu milli frambjóðenda. Atkvæðaseðill við kjör meðstjórnenda er því aðeins gildur ef merkt er við þrjá frambjóðendur. Ef kjósa þarf meðstjórnendur til eins árs má fjölga nöfnum á atkvæðaseðli sem því nemur. Þeir þrír sem flest atkvæði hljóta eru kjörnir til tveggja ára.

Kjörnefnd félagsins gefur út nánari reglur um kjörgögn og fyrirkomulag kosninga og skal kynna hvoru tveggja á heimasíðu félagsins tíu dögum fyrir aðalfund.

Stjórnarfundir skulu haldnir reglulega samkvæmt boðun formanns eða fjögurra stjórnarmanna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum. Falli atkvæði að jöfnu skal atkvæði formanns ráða niðurstöðu.

Stjórnarfundur er löglegur ef fjórir stjórnarmenn eru mættir, þar af formaður eða varaformaður.

7. GR. – AÐALFUNDUR
Aðalfundur hefur æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum félagsins. Á honum fer fram kosning stjórnar, kosning löggilts endurskoðanda, kosning tveggja skoðunarmanna sem sinna innra eftirliti og kosning fulltrúaráðs.

Allir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld sín hafa rétt til setu á aðalfundi en atkvæðisrétt hafa einungis félagsmenn 18 ára og eldri.

Aðalfund skal halda í janúar eða febrúar ár hvert. Í sérstökum tilvikum er þó heimilt að halda hann á síðari stigum, t.d. vegna almannaheill eða náttúruvár. Í slíkum tilvikum er ennfremur heimilt að fundurinn sé rafrænn. Stjórn boðar til fundarins með a.m.k. tuttugu og eins (21) dags fyrirvara, með auglýsingu í fjölmiðli og á heimasíðu félagsins. Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skýrir stjórn frá starfsemi félagsins á liðnu starfsári og gerir grein fyrir áætlunum fyrir yfirstandandi ár, og leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins og ályktar fundurinn um þá. Reikningsár félagsins er frá 1. nóvember til 31. október.

Ársreikningur skal vera aðgengilegur á skrifstofu félagsins í þrjár vikur fyrir aðalfund, þar sem félagsmenn geta kynnt sér hann.

Aukaaðalfund er heimilt að halda telji meirihluti stjórnar og fulltrúaráðs nauðsyn bera til. Aukaaðalfundur er boðaður á sama hátt og aðalfundur og hefur sama vald og aðalfundur.

8. GR. – FÉLAGSFUNDIR
Til almennra félagsfunda skal stjórn boða þegar þörf þykir. Einnig skal boða til almenns félagsfundar ef minnst 100 félagsmenn óska þess skriflega og eftir ákvörðun fulltrúaráðs samkvæmt 9. gr.

Félagsfund skal boða með a.m.k. fimm daga fyrirvara með auglýsingu í fjölmiðli eða á heimasíðu félagsins.

Á félagsfundum má gera ályktanir, samþykkja áskoranir til stjórnar o.fl. en ekki afgreiða nein mál sem samkvæmt lögum þessum heyra undir aðalfund.

9. GR. – FULLTRÚARÁÐ
Á aðalfundi skal kjósa félaginu fulltrúaráð sem og í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og /eða rafrænt, eftir ákvörðun kjörstjórnar hverju sinni skv. 6. gr. Í því skulu sitja fimmtán einstaklingar, þar af fimm síðast starfandi formenn félagsins, njóti þeirra við og að því tilskildu að þeir séu enn félagsmenn, sbr. 4. mgr. 4. gr., og eru þeir sjálfkjörnir. Fráfarandi formaður félagsins er formaður fulltrúaráðs. Forfallist hann tekur við formennsku ráðsins sá fyrrverandi formaður sem næst kemur hinum í tímaröð.

Í fulltrúaráð skal því kjósa a.m.k. tíu fulltrúa til tveggja ára, þó þannig að á hverju ári skal kosið um a.m.k. fimm fulltrúa.

Framboðum til fulltrúaráðs skal skila skriflega til skrifstofu félagsins a.m.k. fjórtán dögum fyrir aðalfund og skal þeirra getið í dagskrá aðalfundar sem er birt á vefsíðu félagsins eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund.

Ef frambjóðendur til fulltrúaráðs eru færri en laus sæti í ráðinu, er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðsfrest í þeim tilgangi að fullmanna ráðið og skal framboðum þá skilað inn amk. 10 dögum fyrir aðalfund. Takist enn ekki að fullmanna ráðið skal stjórn SVFR og fulltrúaráð í sameiningu tilnefna og skipa félagsmenn til setu í ráðinu.

Kjörnefnd úrskurðar um lögmæti framboða og skal að því gerðu birta nöfn frambjóðenda á vefsvæði SVFR eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund. Frambjóðendum býðst að kynna sig og áherslumál sín á vefsvæði félagsins auk þess sem kjörnefnd er heimilt að boða til sérstaks kynningarfundar með frambjóðendum.

Hlutverk fulltrúaráðs er að vera stjórn félagsins til fulltingis og ráðuneytis í málefnum félagsins. Fulltrúaráð hefur engin afskipti af daglegum rekstri félagsins.

Formaður fulltrúaráðs getur kvatt ráðið saman þegar honum þykir nauðsyn bera til. Honum er skylt að kveðja ráðið til fundar ef stjórn félagsins eða fimm fulltrúaráðsmenn óska þess skriflega og gera grein fyrir fundarefni.

Fulltrúaráðsfundur er ályktunarbær ef meirihluti fulltrúaráðsmanna er mættur og a.m.k. 2/3 þeirra eru sammála um afgreiðslu mála, þ.m.t. um að boða til almenns félagsfundar.

10. GR. – VERKEFNI STJÓRNAR, STARFSFÓLK OG NEFNDIR
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Hefur stjórn því á hendi allar framkvæmdir félagsins milli aðalfunda.

Hún sér um útvegun veiðiréttinda og gerir samninga um þau í umboði félagsins. Við ákvörðun um boð í veiðivatn skal liggja til grundvallar ítarleg greining og mat á fjárhagslegri áhættu sem slíku boði fylgir. Forsendur og mat skulu bókaðar í fundargerð stjórnar. Skal hver stjórnarmaður gera grein fyrir afstöðu sinni.

Stjórn útbýr úthlutunarreglur veiðileyfa og kynnir þær. Stjórn annast úthlutun veiðileyfa, ákveður verð á þeim og setur veiðireglur fyrir einstök veiðisvæði.

Félagsmenn skulu sitja fyrir um veiðileyfi, en heimilt er þó að selja þau öðrum en félagsmönnum ef það fer ekki í bága við hagsmuni félagsins að mati stjórnar.

Stjórn ræður framkvæmdastjóra og ákveður launakjör hans. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og hefur mannaforráð. Framkvæmdastjóri skal leita samþykkis stjórnar fyrir breytingum á starfsliði eftir því sem þurfa þykir.

Stjórn er heimilt að stofna til dóttur- og hlutdeildarfélaga ef að það þykir þjóna hagsmunum félagsins. Skal stjórn taka ákvörðun um hverjir taka sæti í stjórn slíkra félaga.

Stjórn skipar árnefndir og aðrar nefndir, sem hafa á hendi tiltekin verkefni. Stjórn setur árnefndum starfsreglur þar sem m.a. trúnaðarskyldur nefndarmanna gagnvart félaginu eru tilteknar. Árnefndir skulu skila stjórn skýrslum um störf sín innan mánaðar frá lokum veiðitíma.

11. GR. – BOÐ Í VEIÐIVATN
Það stríðir gegn hagsmunum félagsins að félagsmaður, í eigin nafni eða annarra, bjóði gegn félaginu í veiðivatn sem félagið hefur samning um eða hyggst endurnýja samning um, hvort sem það er leigusamningur, umboðssölusamningur eða annars konar samningur um sölu veiðileyfa. Það sama gildir ef félagsmaður vinnur með öðrum hætti gegn hagsmunum félagsins í tengslum við boð eða hugsanleg boð félagsins í veiðivötn.

12. GR. – ÞAGNAR- OG TRÚNAÐARSKYLDA
Á stjórnarmönnum, starfsmönnum á skrifstofu félagsins og öðrum þeim er sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið, svo sem í nefndum, stjórnum eða ráðum, hvílir þagnarskylda um málefni félagsins og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og leynt skulu fara samkvæmt samþykktum, reglum lögum eða eðli máls, nema um sé að ræða málefni sem stjórn félagsins ákveður að gera opinber. Helst þagnarskylda þessi þó félagsmaður láti af trúnaðarstörfum í félaginu. Skulu hagsmunir félagsins ávallt hafðir í öndvegi.

Sé um alvarlegt eða ítrekað brot að ræða skal boða til sameiginlegs fundar fulltrúaráðs og stjórnar, sbr. m.a. 13. gr.

13. gr. -VIÐURLÖG VIÐ BROTUM Á LÖGUM OG REGLUM
Brjóti félagsmaður gegn lögum þessum, veiðireglum í veiðivötnum félagsins eða hagsmunum félagsins að öðru leyti, m.a. með broti á þagnar- og trúnaðarskyldu, getur það varðað brottrekstri úr félaginu.

Brot á veiðireglum einstaka veiðivatns geta einnig varðað útilokun eða sviptingu veiðiréttar í því veiðivatni og eftir atvikum fleiri veiðivötnum.

Stjórn félagsins ákveður viðurlög við brotum á lögum þessum.

Sameiginlegur fundur stjórnar og fulltrúaráðs skal þó taka ákvörðun um brottrekstur félagsmanns.

14. GR. – TÍMARIT
Félagið stendur fyrir útgáfu tímarits er nefnist Veiðimaðurinn, og er áskrift að blaðinu innifalin í árgjaldi félagsmanns. Sérstaklega skipuð ritnefnd annast útgáfu blaðsins. Stjórn skipar í ritnefndina.

15. GR. – LAGABREYTINGAR
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með 2/3 hlutum atkvæða mættra félagsmanna.

Tillögum til lagabreytinga skal skila skriflega á skrifstofu SVFR a.m.k. fjórtán dögum fyrir aðalfund og skal þeirra getið í dagskrá aðalfundar sem er birt á vefsíðu félagsins eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund.

Ekki verða greidd atvæði um aðrar tillögur til lagabreytinga en þær sem getið er í fundarboði og breytingartillögur við þær.

16. GR. – FÉLAGSSLIT
Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi og með samþykki meirihluta allra félagsmanna, sbr. einnig 1. mgr 5. gr. Aðalfundur ráðstafar eignum félagsins.

17. GR. GILDISTAKA
Lög þessi öðlast þegar gildi er samþykkt hafa verið og eldri lög félagsins eru um leið úr gildi fallin.