Ari Hermóður Jafetsson
Framkvæmdastjóri

Ari hóf störf hjá Stangaveiðifélaginu 2012, en í janúar 2015 tók hann við sem framkvæmdastjóri félagsins. Ari hefur starfað sem leiðsögumaður við margar af bestu lax og silungsveiðiám landsins síðan á unglingsaldri. Uppáhalds veiðisvæði Ara eru mörg, en Mývatnssveit, Laxárdalur, Nessvæðið og Langá taka mestan veiðitímann frá honum yfir sumartímann en í Nesi fékk hann einmitt sinn stærsta lax, 105 cm, árið 2010. Dimmblá og Iða eru þær flugur sem hann notar mest í laxinum en hann er annálaður fyrir það að vilja helst ekki nota neitt nema þurrflugu þegar hann heldur til urriðaveiða.
ari@svfr.is

Brynjar Þór Hreggviðsson
Sölustjóri

Brynjar (Binni) hóf störf hjá Stangaveiðifélaginu í júlí 2018. Hann er veiðimaður fram í fingurgóma og hefur starfað við leiðsögn víðsvegar um land. Binni hóf sinn veiðiferil ungur að árum og fékk sinn fyrsta lax um 8 ára aldur. Binni hefur veitt í flestum ám sem SVFR hefur innan sinna vébanda og leiðsagt í þeim ófáum, þannig að hann þekkir veiðisvæði félagsins út og inn. Hann hefur kastað flugu á flestum vatnasvæðum á landinu og er hann mest fyrir það að egna fyrir lax.

binni@svfr.is

Ingimundur Bergsson
Skrifstofustjóri

Ingimundur hóf störf hjá Stangaveiðifélaginu 2018, en hann er flestum veiðimönnum kunnugur sem aðal maðurinn á bakvið Veiðikortið sem hann hefur starfrækt til fjölda ára. Ingimundur kemur til að byrja með inn til SVFR í hálft starf og verður því að hjálpa veiðimönnum SVFR samhliða þeim veiðimönnum sem eru með Veiðikortið í farteskinu fyrir sumarið. 

Ingimundur er gífurlega vel að sér í silungaveiði og er sérlegur sérfræðingur SVFR í þeim málum.

ingimundur@svfr.is

Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur

Í stjórn SVFR sitja sjö stjórnarmenn hverju sinni. Formaður stjórnar er kosinn til eins árs á aðalfundi félagsins. Aðalfundur hefur æðsta úrskurðunarvald í málefnum félagsins en þar er einnig kosið um þrjú sæti stjórnarmanna hverju sinni. Aðrir stjórnarmenn en formaður eru kjörnir til tveggja ára. Ný stjórn skiptir með sér störfum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Jón Þór Ólason
Formaður

Jón Þór er formaður SVFR og Þingeyingur í húð og hár. Forfallinn laxveiðimaður sem sinnir lögfræðistörfum utan veiðitímabilsins. Jón Þór hefur verið virkur í störfum fyrir SVFR í gegnum árin og starfað sem leiðsögumaður á svæðum félagsins til fjölda ára. Honum er umhugað um SVFR og vill sjá veg þess sem mestan og vill styrkja félagslega þáttinn í félaginu sem mest og stuðla að stangaveiði sem almennings og fjölskylduíþróttar. Jón Þór er ötull talsmaður gegn laxeldi í sjó og vill berjast gegn því með kjafti og klóm.

Rögnvaldur Örn Jónsson
Varaformaður

Röggi er skagamaður sem á ættir að rekja upp á Snæfellsnes en hans uppáhalds veiðisvæði eru á þeim slóðum. Langá og Hítará eru í sérstöku uppáhaldi hjá Rögga en honum finnst fátt skemmtilegra en að egna fyrir lax með gárutúbum á góðviðrisdögum. Stærstu laxana sína fékk Röggi í Austurá í Miðfirði og dugði ekkert minna en 1″ Frances keilutúba á þann 20 punda fisk, annan eins fékk hann í Ferjuhyl á fjallinu í Norðurá og tók hann Sunray Shadow. Helstu verkefni Rögga, fyrir utan ritara starfið, er umsjón með Fáskrúð, Gufudalsá og Soginu.

Ágústa Katrín Guðmundsdóttir
Gjaldkeri

Kata eins og hún er oftast kölluð er ástríðuveiðimaður og hefur áhugi henar aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Kata er löggiltur endurskoðandi og verkstjórnandi hjá KPMG og hefur starfað þar síðan 2006. Hún hefur brennandi áhuga á stangveiði og félagsstörfum og hefur metnað og áhuga á að vinna fyrir félagið. Maríulaxinn fékk hún í Elliðaánum á Rauðan Frances og er því viðeigandi að hún bjóði fram krafta sína til hagsmuna fyrir félagið.

Hrannar Pétursson
Ritari

Hrannar er fæddur og uppalinn á Húsavík og veiðimaður fram í fingurgóma eftir að hafa orðið veiðidellunni að bráð fyrir margt löngu síðan. Hann býr yfir gífurlegri reynslu af markaðs- og kynningarstarfi og hefur brennandi áhuga á að byggja á grunngildum SVFR og félagsmönnum til framtíðar með það að leiðarljósi að efla félagsstarf SVFR.

Hörður Birgir Hafsteinsson
Meðstjórnandi

Hörður, eða Höddi eins og hann er kallaður í daglegu tali er ættaður úr Skagafirðinum og hefur verið veiðimaður frá unga aldri. Hann starfar sem sölumaður hjá Ölgerðinni á fyrirtækjasviði. Oftast þegar hann heldur til veiða þá er hann fljótur að þræða Iðu upp á tauminn og byrjar oftast að kasta í svefni fyrir vakt. Hítará, Langá og Laxá í Mývatnssveit eru hans uppáhaldssvæði.

Ólafur Finnbogason
Meðstjórnandi

Óli hefur komið að ýmsum nefndarstörfum fyrir SVFR í gegnum árin s.s árnefndarstörfum og skemmtinefndarstörfum. Hann hefur einnig starfað sem leiðsögumaður í að verða 15 ár og hefur Langá verið hans heimavöllur. Hans uppáhalds á er Langá og Haukadalsá og hann veiðir nánast eingöngu á Frigga þegar aðstæður leyfa.

Jóhann Kristinn Jóhannesson
Meðstjórnandi

Jói er ástríðuveiðimaður og hefur áhuga á öllu sem viðkemur stangveiði. Hann hefur starfað sem leiðsögumaður með hléum í Langá síðastliðin ár og er gífurlega kunnugur þar um slóðir.  Langá Fancy á hug hans allan og tjáði hann mér einu sinni í óspurðum fréttum að hann hefði tekið 26 laxa í beit á fluguna í einu og sama rennslinu.