Mývatnssveitin fer vel af stað!

Veiðitímabilið í Laxá í Mývatnssveit hófst með hálfgerðu kuldakasti þar sem bæði fraus í lykkjum og snjóaði. Þrátt fyrir kulda í lofti tók urriðinn grimmt og eru veiðimenn í fyrstu hollunum mjög ánægðir með aflabrögð og þá sérstaklega meðalþyngd fiska.

Það var hvít jörð sem tók á móti veiðimönnum þegar áin opnaði fyrir veiði en urriðinn var í tökustuði þrátt fyrir það. Aflabrögð hafa verið með besta móti og meðalþyngdin hefur verið mjög góð. Óvenju mikið af + 60cm fiskum hefur verið landað sem má eflaust þakka hækkandi sleppihlutfalli í ánni.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá síðustu dögum, úr opnunarhollinu og svo úr hollinu sem lauk veiðum í gær.

 


Ari Hermóður Jafetsson með einn rígvænan urriða. Þrátt fyrir að hann sé hættur störfum fyrir SVFR þýðir það ekki að hann sé hættur að veiða!


“New chef in town”. Veiðimenn hafa látið vel af matnum síðustu daga en Viktor Örn Andrésson meistarakokkur hefur tekið yfir reksturinn á veiðihúsinu í Hofi.  Hér er Ingimundur Elí Jóhannsson kokkur að skera kjöt niður í svanga veiðimenn.


Karl Magnús Gunnarsson með fallega bleikju sem hann fékk við Hrafnstaðaey. Óvenju mikið hefur veiðst af
bleikju frá opnun en flestar eru þær í stærri kanntinum.


Fyrsta vakt – bjart yfir öllu og Árni Friðleifsson
klár í slaginn!


Gleðin tekur völd þegar urriðinn gefur sig!


Annar vænn urriði frá Árna Friðleifs.

 

Við vekjum um leið athygli á því að enn eru einhverjar stangir lausar í vefsölunni okkar í júlí og ágúst.

Allt stefnir í hækkandi hitatölur næstu daga og því má búast við enn betri dögum þar á næstunni, amk fyrir þá sem standa á bakkanum.

SVFR

 

By admin Fréttir