Almennar upplýsingar

 • Staðsetning: Hveragerði, um hálftíma akstur frá Reykjavík
 • Veiðisvæði: Varmá og Þorleifslækur er í heild sinni hátt í 20 kílómetrar. Varmá rennur um Hveragerði og eftir að hún hefur sameinast Sandá nefnist hún Þorleifslækur sem rennur í Ölfusá, um 6 km frá sjó.
 • Tímabil: 1. apríl – 20. október
 • Veiðileyfi: Einn dagur í senn frá morgni til kvölds
 • Daglegur veiðitími: Er 12 klst. á dag, milli kl 08:00-20:00 (1. apríl-12 júní.), kl. 7.00– 13.00 og 16.00–22.00 (13. júní – 20. ágúst) og kl 08:00-20:00 frá 21 ágúst. (21. ágúst – 20. okt.).
 • Fjöldi stanga: 6
 • Leyfilegt agn: Fluga
 • Vinsælar flugur: Hinir ýmsu kúluhausar, þurrflugur og straumflugur
 • Meðalveiði: Yfirleitt eru skráðir um 500 fiskar í bók á ári en skráningu er verulega ábótavant.
 • Kvóti: Leyfilegt er að hirða 1 fisk á stöng á dag eftir 1. júní. Veitt og sleppt frá 1. apríl til 30. maí. Við hvetjum veiðimenn til að sleppa stóru birtingunum.
 • Veiðivörður: Björn Níelsson sími 852 0118. Sigurður Már sími 8235469. Vinsamlegast kynnið ykkur skjalið um helstu upplýsingar til að vita hvor veiðivarðanna er á vakt. Hægt er senda veiðivörðum SMS og biðja þá að færa veiðina til bókar. 
Veiðikort Árnefndarskýrsla 2018

Veiðihús

Nýtt veiðihús var tekið í notkun vorið 2017 og er það staðsett við enda götunnar Sunnumörk, ofan við þjóðveginn. Þar geta veiðimenn hlýjað sér, snætt nestið sitt og skráð í veiðibókina aflann sinn.

Veiðin

Vatnasvæði Varmár er um margt sérstakt en þar má finna allar tegundir íslenskra ferskvatnsfiska en sjóbirtingurinn er þó alls ráðandi á svæðinu. Margir stórir staðbundnir urriðar veiðast ár hvert ásamt sjóbirtingum, um og yfir 80 cm. Undanfarin veiðisumur hafa sýnt að áin er komin til baka eftir klórslysið sem hún varð fyrir árið 2007. Það leynast gríðalega stórir og sterkir fiskar í þessari litlu og nettu á. Varmá er tilvalin til að leiða unga veiðimenn inn í undraheim stangaveiðinnar. Veiðitímabilið er langt á bökkum árinnar, það hefst strax í apríl og stendur allt fram til 20. október. Hér er griðastaður fluguveiðimanna en rétt er að taka fram að til þess að hlúa að fiskistofnum þessa viðkvæma vatnasvæðis er kvótinn 1 fiskur á hverja stöng á dag en það má að sjálfsögðu veiða og sleppa að vild eftir það. Einnig biðlum við til veiðimanna að sleppa þeim stóru og skrá allan veiddan afla í veiðibókina, sem staðsett er í veiðikofa, því enn má bæta skráningu.

Varmá kemur svo sannarlega skemmtilega á óvart og það er engin tilviljun að sömu mennirnir sækja í ána dag eftir dag, ár eftir ár.

Helstu upplýsingar - Reglur

Leiðarl‎‎ýsing að veiðihúsi

Veiðihúsið er staðsett við götuna Sunnumörk, við enda hennar næst Varmánni sjálfri fyrir ofan þjóðveg. Þegar komið er að hringtorginu í Hveragerði er haldið áfram eins og í átt að Selfossi og tekin næsta beygja til vinstri og svo strax til hægri inn Sunnumörk. Veiðihúsið er staðsett við enda þeirrar götu.